REISUBÓK Á FÓTBOLTALEIKINN ÍSLAND-SVÍÞJÓÐ.
Þú álfu vorrar yngsta land, vort eigið land, vort fósturland etc. [e. Hannes Hafstein], ó já mikið var sungið og hvatt á landsleiknum. Ógleymanleg ferð til Stokkhólms fyrir margar sakir, hér koma nokkrir factar um þessa reisu.
Mér var boðin ferðin á síðustu stundu, lest – landsleikur – gisting, á gjafverði af manni sem illa var haldinn af prófkvíða, við hringdum nokkrum sinnum í hann meðan á ferðinni stóð og hann lærði ekki neitt, tel ég víst. Ferðafélagarnir voru félagar mínir úr fótboltaklúbbnum F.C. Tungur Knivur, frá Lundi, þeir Óskar sjúkraþjálfari og fjar-nemandi í stjórnsýslufræðum við HÍ, Fjalar verkfræðinemi sem ég hafði þá ánægju að hraðasekta fyrir tveim árum síðan á Markárfljótsaurum, Hörður pókerface verkfræðinemi og Mözdueigandi, Skarphéðinn –kirsuberjavodka- Pétursson úr Laugarási og svo ég sjálfur. Lestarferðin var mjög skemmtileg, við spiluðum póker og vist báðar leiðir, ég tapaði reyndar 60 SEK í pókernum en var með langhæsta skorið í vistinni.
Þegar við komum til Stokkhólms drifum við okkur heim á hótelið, sem virtist í fyrstu vera elliheimili en kom í ljós síðar að var hið fínasta í alla staði. Því næst litum við í kringum okkur í 18 – 20 stiga hita og röltum um bæjinn á leiðinni á barinn Crazy Horse. Fyrir utan KB-banka hittum við svo hjálpfúsan Íslending sem átti eftir að vera betri en enginn í að hjálpa okkur að rata, en til þess tíma hafði það ekki gengið þrautalaust.
Á Crazy Horse hittum við allar 10 íslensku fótboltabullurnar og má segja að ástand okkar og útlit hafi breyst mjög mikið á þeim 3 klst sem við vorum þar, áður en leikurinn byrjaði. Ég mun kannski sýna myndir seinna en amk. var undirritaður með góða andlitsmálningu og trefil, flestir voru ansi skrautlegir, einkum þó Óskar sem Hörður málaði á, hræðilegan klessufána þvert yfir allt andlitið. Við vorum með ,,smá ólæti” eins og sönnum bullum sæmir sem gerði það að verkum að okkur var næstum því ,,sparkað af Crasy Horse”. Við tókum einnig þátt í happadrætti, tvö frí flug, hvert sem er með Flugleiðum, líkurnar á að ég vinni eru sennilega svona 4 á móti 100, enda fáir sem skiluðu inn og ég skilaði, já segjum amk. fjórum miðum (alltaf var verið að bera í okkur fleiri miða og maður kann jú ekki við að segja nei, Vaka mín tók reyndar líka þátt...)
Síðan kom landsleikurinn.
Við áttum, og unnum, fyrstu 20 mínúturnar. Frábær skemmtan. Auðun Helgason átti reyndar að tækla Zlatan, ekki öfugt (takkaförin á lærinu á honum um kvöldið töluðu sínu máli). Gífurlegur fögnuður við fyrsta markið, sem við skoruðum. Syngja ,,Helan går” og fleiri ,,snappchvisor” með Svíum fyrir utan klósetin í hálfleik, og hitta íslenskan læknanema. Annað sem mér finnst stórmerkilegt er hversu mörg sænsk blótsyrði Skarphéðinn lærði á leikskólanum í Gautaborg í gamla daga. Tíu öryggisverðir í kringum okkur fimm (og Ásthildi Helgadóttur fótboltakonu sem sat hjá okkur). Ég hefði aldrei trúað því hversu ógeðslegar fótboltabullur við vorum, maður datt bara í einhvern furðulegan og andstyggilegan karakter. “Zlatan, hata hann”, ,,Den gamla den fria, den fjallhöga nord –DET ER JO ISLAND SOM I PRÄTAR OM! ,,Zlatans mamma [ekki birtingarhæft]” já og svo hið klassíska ,,Áfram Ísland”. Já við fengum góða útrás fyrir íslensku-sænsku minnimáttarkenndina á þessum leik. Var reyndar svoldið leiðinlegt að fá á sig þrjú mörk, en hva, það skipti okkur ekki svo miklu, létum það ekki spilla gleðinni.
Og nú fer þetta að verða áhugavert.
Fyrir utan leikvöllinn gerðust tveir okkar fyrirsætur, og eru í dag á blaðsíðu 2 í sportblaði Aftonblaðsins hér í Svíþjóð í dag. Hörður fór í viðtal við íslenska Ríkisútvarpið og við ákváðum að fá okkur að borða og villtumst að sjálfsögðu lítillega. Í lestinni sungum við svo valda sænska og íslenska söngva, sem er óþarfi að fara nánar útí, en vakti mikla aðdáun og hrifningu hinna sænsku frænda okkar.
Við höfðum fengið upplýsingar um hvar fjörið yrði um kvöldið, sennilega hafði Óskar, sem hefur unnið töluvert fyrir landsliðið náð í fréttir um fyrirkomulag, enda lítið um að vera á miðvikudagskvöldi alla jafna í Stokkhólmi. Staðurinn sem var aðaldjammstaðurinn þetta kvöld, er flottasti (eða næstflottasti) skemmtistaður sem ég hef komið á. Nánar tiltekið var um að ræða Café Opera, sem er í sænska Óperuhúsinu eins og nafnið gefur með sér og beint á móti konungshöllinni. Sennilega þarf Karl Gústav að loka vel gluggunum hjá sér á kvöldin, nema hann hafi kíkt þarna um kvöldið, þ.e. ef hann var á gestalistanum. Þegar við komum þrír þarna, en tveir höfðu farið á undan inn, þá var röðin afar löng og einhver sérstakur gestalisti sem dyraverðirnir notuðu til að sigta fólk inn. Ég fylgdist með afar óhressum Svíum vera vísað frá með bölvi og ragni, ekki á listanum, ekki inn.
Svona lítur staðurinn út:
http://www.cafeopera.se/default.aspx
En hvað gerðum við til að komast inn?
Jú, það var afar einfalt, það þurfti aðeins tvö töfraorð eins og í ævintýrinu í Þúsund og einni nótt, það var þó ekki: ,,Sesam Sesam” heldur: ,,KSÍ og Eggert Magnússon.” Og hliðin opnuðust, gjörið þið svo vel, og við horfðum ekki einu sinni í áttina að biðröðinni.
Staðurinn var pakkaður af fólki, en við náðum samt að stela borði sem átti að vera frátekið, ég skrifaði einfaldlega á rauða miðann: ,,Reserverad for Héraðssambandið Skarphéðinn” og virtist það vera fullnægjandi, amk. framan af.
Inni á þessum stað voru bæði íslenska landsliðið og sænska landsliðið auk margra annarra þekktra andlita hér í Svíþjóð, allir sem eru eitthvað í Svíþjóð voru þarna. Íslenska landsliðið var rétt fyrir utan sænska landsliðið í salnum og alltaf að kíkja eitthvað til þeirra, það var þokkalega góð stemmning þarna. Það er líka nokkuð ljóst að það var vigt við dyrnar, stelpurnar féllu undir það að vera footballers wifes, rétt eins og í sjónvarpinu (,,as seen on tv").
Og hvað skyldi ég svo hafa haft fyrir stafni?
Ég keypti mér viskíglas, sem var það dýrasta sem ég hef keypt á bar í Svíþjóð til þessa, ákvað því að hætta að drekka (skiljist ekki rýmkandi). Síðan spjölluðum við eitthvað þarna á Skarphéðinsborðinu. Seinna fórum við og kíktum á dansgólfið, allir lofaðir menn og svona, og tókum góðan snúning okkur til gamans og öðrum sennilega einnig, amk. sogaðist að okkur skemmtilegur hópur og var þetta mjög gaman.
Ég kíkti, nú bara eins og náttúran fyrirskipar, á klósetið, og það var smá röð, en það var allt í lagi, ég hitti þarna þrælskemmtilega Svía. Einhvern Ljungberg, held ég hann heiti, en hann spilar með F.C. Arsenal og mann sem heitir Larsson og var líka í sænska landsliðinu held ég, en ég veit reyndar ekki með hvaða liði hann spilar í dag, sennilega er hann í skosku deildinni, held ég. Þeir voru ágætir, svoldið uppáþrengjandi reyndar, þessi Ljungberg var alltaf að bjóðast til þess að sýna mér eitthvað asnalegt tattoo sem hann var með á upphandleggnum, og vildi endilega fá mig til að drekka skánskt ákavíti með sér, en ég náði að losa mig við hann. Larsson var nú heldur skárri, já og Íslendingarnir voru líka fínir.
Sjá annars þessa frétt:
http://www.aftonbladet.se/vss/sport/story/0,2789,712883,00.html
Ég gæti haldið áfram lengi að lýsa því sem gerðist þetta kvöld og þennan dag, en lesendur þessarar síðu kunna að vera óþolinmóðir þegar kemur að löngum texta, eins og komment hafa sýnt og vill ég ekki reyna um of á þolrif þeirra.
Í morgun vaknaði ég svo hress, baðaði mig og borðaði morgunmat um kl. 11. Við skoðum okkur um í Stokkhólmi og áttum góðan dag í góðu veðri. Við sáum m.a. hlaupandi þjóf og lafmóðan feitan öryggisvörð á eftir honum, ,,stopp tyven!”. Gamli bærinn og konungshöllin voru skoðuð og að lokum var tekið eitt pókerspil í lestinni á leiðinni heim, og ég var einum gosa frá því að vinna pottinn, en maður vinnur jú ekki allt eins og íslenska landsliðið segir!
Bestu kveðjur frá Svíþjóð,
fréttaritari Orators í Lundi þakkar fyrir sig.