föstudagur, nóvember 05, 2004

Gaz i byen

Undirritaður tók þátt í norrænu vikunni í Kaupmannahöfn síðastliðna helgi. Til stóð að byrja ruglið á föstudagsmorgni, en eftir óvænta hringinu frá Laust var frá því horfið og byrjað á fimmtudagskvöldið. Reyndar var undirritaður vakinn með hringingu frá alþjóðaritara Juridisk Diskussionsklub á þriðjudagsmorgni og honum tilkynnt um að hann ætti að vera hýsill. Það var í orden, þar sem um var að ræða Brian nokkurn Jacobsen, sem undirritaður hefur nú hitt á 4 norrænum vikum.

Nokkrar breytingar urðu á dagskrá vikunnar vegna þess hve hún var gríðarlega illa auglýst og einungis 10 þátttakendur skráðir í það heila. Var það samt hið besta mál, enda skiptir fjöldinn ekki öllu máli. Yfirleitt var einungis einn einstaklingur frá hverjum skóla, og því mikið um svokallaða "free-riders", þar á meðal undirritaðann.

Alþjóðaritarinn hérna úti, Andreas Ravn, og norræna nefndin hafði safnað 50.000 DKK (um 600.000 IKR) og lagt inn á debetkort, sem Andreas gekk svo um með á kvöldin og veifaði í allar áttir. Reyndar var ekki mikið um skipulagða dagskrá að ræða um kvöldin, eingöngu stóð í dagsskránni að þá væri "Gas i byen"!! Var það einkar gott gas og náði hámarki þegar Andreas sá fram á að geta ekki eytt öllum þeim pening sem safnað var. Hélt þá hópurinn á milli staða í þeirri von um að finna sem dýrasta kampavínið. Á endanum tókst að finna flösku sem kostaði 4.000 DKK og var hún keypt "med det samme".

Kokteill fyrir árshátið var haldin á lögmannsstofunni Lind og Cadovius, sem er á Strikinu og var þar boðið upp á freyðivín og kræsingar. Ótrúlegt að sjá hve norrænir gestir höfðu tekið miklum breytingum þegar þeir voru komnir í galaklæðnað og búnir að snyrta sig. Eftir uppáhellingu var haldið í eftirforkokteil í andyri aðalbyggingar Kaupmannahafnarháskóla. Þar spjallaði undirritaður m.a. á íslensku, við Ditlev nokkurn Tamm, prófessor í réttarsögu við Kaupmannahafnarháskóla. Hann mun vera Sigurður Líndal þeirra Dana, enda fyndinn og hress með endemum. Þó mun hann vera ólíkur téðum Líndal að því leyti að honum finnst stundum gaman að bera á sig augnskugga og klæðast leðurfötum!

Matur og vín á árshátíð var með besta móti. Lax bakaður í soyasósu með sítrónuolíu og sultuðum tómötum í forrétt og með því, Las Casas del Toqui Semillon, 2002, Chile. Í aðalrétt var perluhæna með foie gras og "tilbehør", en með því var drukkið Castello del Trebbio, 2000, Chianti. Undirritaðann minnir að eftirréttur hafi verið ágætur, en á þeim tímapunkti ákvað hann að "mellandö", fram á borðið. Eftir um það bil 10 mínútur var undirritaður þó vakinn og var hinn hressasti það sem eftir var kvölds. Norrænir gestir og þar á meðal undirritaðann fannst gott flipp að stiga upp á borð eftir lokaréttinn og taka "af med buksern" fyrir framan liðið (350 manns). Fremstir í þeim flokki manna voru Danir og Íslendingar.

Eftir ballið var svo haldið í eftirpartí á staðnum NASA, þaðan í morgunmat hjá Tyrkjum og síðan haldið á Hong Kong. Kom undirritaður því ekki heim fyrr en um klukkan 11 að morgni sunnudags, en á þeim tíma byrjaði einmitt sillis!! Eftir 5 tíma svefn var loks haldið í sillisið sem var til húsa á Købmagergade. Mikið var um hávaða í norrænum gestum og mætti löggan á svæðið (reyndar eiginlega bara í myndatöku með nordistum). Mun undirritaður reyna að skaffa myndir á síðuna hið fyrsta.

Um klukkan 8 um kvöld var svo haldið í eftirsillis, þar sem þar bar helst til tíðinda að helmingur norrænu gestana drapst (þó ekki undirritaður), og fjórðungur gestana ákvað að hlaupa naktir í kringum blokkina.

Í það heila var þetta ágætisvika, þó hún hafi ekki verið fjölmenn, en fámennið var bætt með góðmenni.