miðvikudagur, mars 31, 2004

Bruss og Lux

Hann Simon, kennari í EU-law, hefur undanfarið verið að byggja upp spennu í bekknum fyrir vettvangsferð til Luxemburg og Brussel um miðjan apríl. Í ferðinni átti að skoða höfuðstöðvarnar í Brussel og halda svo til Luxemburg, sjá dómstóllinn og hlýða á mál fyrir honum. Í síðustu viku voru komnar einhverjar vöflur á Simon með ferðina en í gær kom svo höggið. Tilkynnti hann okkur að hætt væri við ferðina vegna þess að engin "relevant" mál væru fyrir dóminum á þessum tima. Þetta fannst fólki nátturulega hundfúlt enda hinn dæmigerði skiptinemi í útlöndum ekkert að hugsa um neitt relevant. Eða eins og einhver í bekknum sagði relevant, elephant.

Annars byrja ég í páskafríi á morgun og stendur það í tæpar tvær vikur. Notar maður þann tíma eflaust til að ná í skottið á sér með lesturinn en einnig er hún Elsa með einhvejar ferðir um Danmörku. Í kvöld er hins vegar miðvikudagur sem þýðir að barinn er opinn hér á kollieginu. Einhverjir rómaðir írskir þjóðlagasöngvarar ætla að skemmta og eru nágrannar mínir alveg að missa sig. Vonandi standa þeir írsku undir væntingum.

Kv. Guðjón

þriðjudagur, mars 30, 2004

Snjóbretti

Ég var að koma úr snjóbrettaferð frá Zell am See á sunnudaginn. Reyndar var það svo að viðskiptaháskólinn í Vín hafði planað ferðina en nokkrir úr háskólanum í Vín fengu að fljóta með og sé ég ekki eftir því að hafa loksins komið mér í fjöllin...svoldið seint en betra seint en aldrei.
Ferðin hófst á fimmtudaginn þegar farið var með lestinni frá Vín til Zell am See, spenningurinn var í hámarki enda var þetta síðasti séns að skella sér á snjóbretti (eða skíði fyrir þá sem það gerðu). Þegar komið var á staðinn var það fyrsta sem varð að afgreiða var að redda sér snjóretti. Þar sem klukkan var þegar orðin of margt til að fara í brekkurnar þá fór fimmtudagskvöldið í það að redda sér mjólk fyrir helgina. Reyndar er viðskiptaháskólinn hér svo vinalegur að þeir sáu til þess að allir fengu fría mjólk alla helgina.
Föstudagurinn hófst svo snemma morguns þar sem gerð var tilraun að renna sér á snjóbretti í meðalþynnku. Dagurinn endaði svo að ég notaði brettið og renndi með niður brekkurnar á maganum til þessa að hlífa afturendanum eftir átök dagsins. Kvöldið endaði með svipuðum hætti og kvöldið áður nema sökum þreytu í mannskapnum var farið nokkru fyrr í bælið.
Á laugardeginum fór sársaukinn frá afturendanum yfir í axlirnar og haldið var heim eftir nokkur misvel útfærð “stökk” sem eiginlega voru ekki fyrirfram plönuð. Sökum sársauka í líkamanum fann ég ekki fyrir þreytunni og varð því að notast við þjáningarvökva til halda út kvöldið...sársaukinn hvarf...alveg.
Á sunnudaginn var einhver svo sniðugur að stela klukkutíma úr sólahringnum og við það skertist svefninn um klukkutíma. Þortlausar æfingar skiluðu loksins árangri og mér tókst að renna mér allan daginn án þess að slasa mig né aðra sem voru nálægt mér, þrátt fyrir margar góðar tilraunir. Um kvöldið var svo haldið til baka en áfengisdrykkjan hafði greinilega ekki verið nægilega góð um helgina þar sem talsverðar birgðir voru eftir og við vorum þar af leiðandi neydd til að klára restina í lestinni, sem okkur tókst en með dramatískum afleiðingum og verða þær ekki skýrðar frekar...
Á morgun er svo flogið til Parísar og road trip frá París til Vínar á sunnudaginn, það verður án efa áhugavert að fara alla leiðina með fimm manns í litlum Renault Clio, gæti orðið þröngt.

Þetta ætti að vera nóg í bili héðan úr Austurríki
Kveðja Eiríkur H
Nýtt útlit - Nýir tímar

Studjuris hefur farið í andlitslyftingu. Í tilefni af því er öllum gestum síðunnar boðið að hlusta á þetta tónlistarmyndband endurgjaldslaust.

Lesendur eru hvattir til að láta í ljós skoðun sína á þessum breytingum á commentakerfi síðunnar. Studjuris gerir sér fyllilega grein fyrir að breytingar þessar geta orðið umdeildar enda laganemar með eindæmum íhaldssamir.

mánudagur, mars 29, 2004

Mars - blogg

Eitthvað eru nú færslurnar orðnar stopular hér á honum Studjuris. Það þýðir nú samt ekki að líf laganema í útlöndum sé eitthvað rólegheitar líf. Held reyndar að fá blogg í okkur skiptinemum séu bara skilaboð um mikið rokk hér á meginlandinu.

Síðan ég skrifaði síðast hef ég farið tvisvar til Kaupmannahafnar. Í fyrra skiptið var m.a. komið við í Kristjaníu til að skoða reykmenninguna. Öryggistilfinningin var algjör. Einhver "rassía" var í gangi og allt krökkt af lögreglumönnum. Ég ræddi við einn mjög skakkan íbúa og hann fullyrti að um þrjú hundruð lögreglumenn væru á svæðinu. Þessi maður, sem var um fimmtugt og sérlega subbulegur, var alveg miður sín yfir ástandinu og taldi gróflega brotið á rétti hinna heiðvirðu borgara í Kristjaníu.
´
Í seinni ferðinni var m.a. komið við í Amalienborg og slottið skoðað. Líklega hefur nú Hinrik drottningarmaður verið að glápa útum gluggann þegar við komum. Ekki vorum við búnin að vera lengur en 5 mínúttur fyrir utan þegar karlinn strunsar út til okkar. Þegar á hólminn var komið vildi hann samt ekkert við okkur tala og labbaði framhjá. Þorir hann greinilega ekki að tala við ókunnuga.

Exchange-partý og fredagsbarir eru svo vikulegir viðburðir og efni í nokkra pistla. Mjög skemmtileg fyrirbæri en meira af því seinna. Nú verður bloggað enda styttist í próf. Að lokum vil ég bjóða hinn dularfulla Uppsalar-Ragnar velkominn til leiks.

Með kveðju í bili, Guðjon.

sunnudagur, mars 28, 2004

Heja Uppsala!

Jæja, þá er ég búinn að vera í Svíþjóð í 2 mánuði og það hefur liðið ótrúlega hratt. Kominn tími til að ég léti í mér heyra hér!
Skólinn er mjög spes - allir kennararnir tala rosalega hátt, sem er nokkuð sem ég er mjög óvanur. Sérstaklega er kennarinn í Samanburði á skaðabótarétti milli Austur-Evrópulanda rosalega slæmur. Ég get ekki lengur setið fremst vegna þess hversu hátt hann talar og svo þegar hann verður æstur (sem er mjög oft) á hann það til að skyrpa yfir mann. Þetta er mjög óhuggulegt.
Annars er ég búinn að eignast fullt af vinum hér - sérstaklega finnst mér gaman að spjalla við Sven, en við eigum sameiginleg áhugamál, skák og veiðar. Hann ætlar einmitt að bjóða mér í heimsókn næstu helgi í sumarhús eiginkonu sinnar í Smålanda þar sem ku vera mjög gott að renna fyrir laxi.
Félagslífið hér er gott, fullt af klúbbum, gott að kíkja í glas yfir góðri tónlist.
Ég ferðast allt á hjóli hér, góð hreyfing sem og mjög heilsusamleg. Veit að ég á eftir að sakna þess þegar ég kem aftur til Íslands.
Páskafríið er á næsta leyti og margir góðir félagar hafa boðið mér í heimsókn til sín yfir hátíðarnar þar sem ég ætla ekki heim til Íslands. Ég er mikið að hugsa um að skreppa til Finnlands og vera nokkra daga hjá Mika, en hann býr í Turku. Hefði ekki á móti því að slappa af í sánu og jafnvel fara á gönguskíði, en ég var mikið á þeim sem barn og hugsa oft um að rifja upp gömlu taktana.
Annars verð ég í lokin að segja ykkur frá partýinu sem ég hélt hér í gær. Það var mjög gott, margir góðir menn komu, en hinsvegar fékk Mika sér of mikið neðan í Salmiaki og átti í erfiðleikum með að finna klósettið svo að aðkoman bakvið flauelsgluggatjöldin í stofunni var ekki góð í morgun. Hvað var maðurinn eiginlega búinn að borða um daginn, maður spyr sig?
Bið að heilsa í bæinn.
Kv. Ragnar Fjeldsted

mánudagur, mars 08, 2004

Eru íslendingar í útrýmingarhættu?
Eftir sex mánaða dvöl hér á meginlandi Evrópu kemur mér það alltaf jafn mikið á óvart hvað öllum finnst merkilegt að hitta íslending. Í síðustu viku sat ég í makindum mínum ásamt nokkrum félögum að dreypa á "eðal" hvítvíni þegar grísku Erasmusnemarnir komust að því að íslendingur sæti við borðið þeirra. Viðbrögðin létu ekki á sér standa, "vá!! Íslendingur, HÉR?? hvar er hann?? hvar er hann??".

Fyrir nokkrum vikum síðan fór ég á skemmtistað í Prag og þá fékk afgreiðsludaman móðursýkiskast þegar hún komst að því að íslendingur væri í hópnum. Um helgina var ég í Bratislava og hitti nokkra þjóðverja sem biluðust þegar heyrðu setninguna: "Ich komme aus Island..." áður en ég vissi af var farið að hlaða bjór á borðið mitt. Ferðafélögum mínum er ekki lengur skemmt...

Ég er farinn að velta þvi fyrir mér hvort fólk haldi við séum eitthvað furðuleg og þess vegna svona áhugaverð, kannski ekki skrýtið þar sem eini íslendingurinn sem flestir þekkja er Björk. Reyndar hef ég það á tilfinningunni að sumum finnist jafn merkilegt að sjá Íslending eins og dýr í útrýmingahættu, e.t.v. væri hægt að kom á íslendingskoðnum í staðinn fyrir hvalaskoðanir, hægt væri að láta túrsitana borga verndargjald þegar þeir koma inn í landið, þar sem það kostar svo mikinn pening að viðhalda stofninum og Ísland yrði án efa ríkasta landið í heiminum.

Reyndar virðast hins vega flestir halda að ég sé finnskur, ég veit ekki alveg hvort ég á að hlæja eða gráta þegar fólk spyr mig að þessu, jafnvel Finnarnir halda að ég sé finnskur. Maður nokkur gekk upp að mér (og nokkrum íslendingum) í Búdapest um daginn öskrandi: Soumi?? Soumi?? Svo hélt hann mikla ræðu um það hvað það væri mikilvægt að vera með leiðsögumann um borgina til þess að vera ekki að eyða óþarfa tíma til einskis, well time is money. Ég reyndi að koma honum í skilning um að við hefðum ekki áhuga en þá öskraði hann á mig og sagði að það væri dónalegt að grípa frammí, hann masaði út í eitt og mínúturnar liðu og liðu, þar til ég fullkomnaði dónaskapinn og sagði pent að við hefðum ekki áhuga á því sem hann var að bjóða og hann væri þegar búinn að eyða dýrmætum tíma okkar í borginni, gekk burt og fékk að launum nokkrar línur á ungversku sem ég skildi sem betur fer ekki.

Kveðja frá Vínarborg,
Eiki Hauks.

fimmtudagur, mars 04, 2004

Á að sparka í konur?

Jæja það er víst kominn tími til að láta í sér heyra enda hafa stelpurnar í Brussel lofað að byrja að blogga á fullum krafti um leið og netið þeirra kemst í gagnið. Maðurinn með rokkaranafnið og fyrrum samstarfsmaður minn hjá óbyggðanefnd, Eíki Hauks, mætti einnig láta í sér heyra.

Um síðustu helgi lagði ég land undir fót og ferðast um Danmörku. Á föstudeginum fór ég til Odense að hitta vini frá Íslandi m.a. eina af Brusselstelpunum. Á laugardaginn fór ég í 25 ára afmæli í Holsterbro hjá Þorvaldi Skúla félaga mínum. Voru þetta hinar skemmtilegastu ferðir.

Á leiðinni til Odense var ég svo heppinn að við hlið mér sat yfirmaður í danska hernum sem hefur það verkefni að rannsaka mál sem upp koma í kringum danska hermenn. Hafði þessi náungi verið fastagestur í Írak enda danskir hermenn að störfum þar. Sagði hann mér margar skemmtilegar sögur og m.a. eina um samskipti danskra hermanna við Íraka. Þannig var mál með vexti að einhverjir óprúttnir heimamenn tóku sig til og sprengdu bensínstöð í loft upp. Eyðilagðist hún nú reyndar ekki alveg og drifu íraskar konur að til að verða sér út um ókeypis vörur. Dönsku hermennirnir sáu að þetta gat ekki gengið og fóru að ýta konunum í burtu þannig að þær stælu ekki öllu. Við þetta urðu íraskir karlmenn í nágreninu alveg brjálaðir og hótuðu þeim dönsku lífláti því það færi gegn öllum þeirra lögmálum að snerta ókunnugar konur með höndunum. Danirnir spurðu þá írösku karlana hvort þeir ættu bara að fá sér kaffi meðan stöðinni yrði stolið með manni og mús. Nei, sögðu þeir írösku, þið eigið að sparka í þær! Það flokkaðist nefnilega ekki sem snerting. Sagði ferðafélaginn að það hafi tekið danska hermenn langan tíma að venjast þessu og nú fyrst væru þeir farnir að geta sparkað almennilega í þær írösku. Þetta fannst mér bæði fyndið og grátlegt. Spurning hvort þeir dönsku nái að venja sig af þessum (ó)sið áður en þeir snúa til baka til Danmerkur.

Nú um helgina á ég svo von á heimsókn. Jón Óli bróðir og Héðinn vinur hans hafa fengið fararleyfi og ætla að kíkja til Gauja. Verður föstudagurinn tekinn í Kaupmannahöfn en laugardagur og sunnudagur í Árósum. Er ég reyndar strax orðinn spenntur hvort Jón Óli brjóti odd af oflæti sínu og kíki í fyrsta sinn í strætó. Að öðrum kosti verður hann að elta strætóinn okkar Héðins á taxa.