miðvikudagur, febrúar 11, 2004

X-Vaka

Að þessu sinni ætlar ritstjórnarmeðlimur Studjuris í Danmörku ekki að segja sögur af sjálfum sér. Nú verður horft út fyrir landsteinana þ.e.a.s. út fyrir hina dönsku landsteina. Ástæðan er að heima á Íslandi standa yfir kosningar til Stúdenta- og Háskólaráðs.

Vaka hefur farið með í meirihluta í Stúdentaráði síðustu tvö ár. Á þessum tveimur árum hefur Vaka náð að hreinsa ærlega til á loforðalistum þeirra fylkinga sem boðið hafa fram til Stúdentaráðs. Nú er t.d. ekki lengur þörf að lofa prófasafni á netinu, réttindaskrá fyrir stúdenta, rýmkuðum opnunartíma í prófum, dýrum framkvæmdum vegna smartkorta, prófklukkum í kennslustofur, afsláttarkorti fyrir stúdenta, lóðum frá borginni undir stúdentagarða, bætri lesaðstöðu á görðum, aðgangi fulltrúa stúdenta að kennslukönnunum og margt fleira. Þetta er hluti af því sem við Vökumenn náðum í gegn á fyrstu tveimur árum okkar en áður féllu þessi mál í flokk svokallaðra eílífðarmála.

Fjárhagsmál Háskólans eru hins vegar ein af stóru málunum þetta árið. M.a. fyrir tilstilli formanns SHÍ hefur tekist halda því máli heitu í umræðunni allt síðasta ár. Er nú svo komið að málið er rætt út um allt þjóðfélag. Viðtöl og greinar í fjölmiðlum, ályktanir Stúdentaráðs, áskoranir á þingmenn og bréfaskipti við stjórnvöld hafa skapað umræðu sem aftur hefur skilað pólitískum þrýstingi. Hefur nú menntamálaráðherra ákveðið að láta fara fram fjárhags- og stjórnsýsluúttekt á H.Í. Vonum við að það sé fyrsta skrefið í að Háskólinn taki til í eigin ranni og ríkið auki stuðning sinn við Háskólann.

Öfugt við forvera sína í meirihluta Stúdentaráðs hefur Vaka hins vegar ekki snúið þessum málum upp í persónulegar illdeilur við þá einstaklinga sem fara með málefni menntamála í landinu. Ekki er lengra en rúm fimm ár síðan að birt var í Stúdentablaðinu skrípamynd af menntamálaráðherra honum til háðungar. Var höfðuð ráðherrans teiknað á tvo hundsbúka sem stóðu grimmir fyrir framan Háskólabygginguna. Var ákveðið að hafa myndina á forsíðu blaðsins. Ekki er nú alveg víst að þessi baráttuaðferð hafa skilað stúdentum bættari hag?

Vaka mun áfram vinna að hagsmunum Háskóla Íslands á jákvæðan hátt. Frambjóðendurnir eru sérlega frambærilegir í ár og munu án efa halda merkinu hátt á lofti. Vaka er algerlega óháð félag og án efa það fjölmennasta og öflugasta við Háskóla Íslands. Vaka ætti því í ljósi árangurs síns að fá stuðning háskólanema í dag.

X-A

föstudagur, febrúar 06, 2004

Metermesterskabet 2004

Nú stendur yfir hinn skemmtilegi leikur Metermesterskabet 2004 hér á stúdentagörðunum í Ravnsbjerg. Sá leikur gengur út á það hvaða eldhús hér á görðunum drekki mest af tiltekinni bjórtegund á garðabarnum nú í febrúarmánuði. Ef keypt er heil kippa í einu skrifast einn metri á þitt eldhús. Þetta þýðir að ekkert telur að kaupa t.d. fimm bjóra í einu. Vegleg verðlaun eru í boði fyrir meðlimi viðkomandi sigureldhúss eða hvorki meira né minna en polo-bolir! Miðað við það og að sigureldhúsið í fyrra náði að torga bjór sem samsvaraði hátt á annað hundrað metrum þá held ég að rekstaraðili barsins megi teljast hinn raunverulegi sigurvegari ár eftir ár.

Mikil hugur er í garðabúum fyrir þessari keppni en á opnunarkvöldinu sl. miðvikudagskvöld kom þó í ljós að einstaka Dani lét kappið hlaupa með sig í gönur. Ég sem siðprúður Íslendingur reyndi þó að miðla af hinni fáguði drykkjumenningu Íslendinga. Virtist reyndar gengið út frá því á þessum bar að ef beðið er um bjór þá skiljist það sem sex bjórar. Undir lok kvöldsins ætlaði ég nefnilega að fá mér einn lítinn en sat uppi með sex. Barþjónninn sem var afar “ligeglad” tók þetta þó á sig og fékk ég því sex bjóra á verði eins. Eignaðist ég í kjölfarið fimm nýja vini.

En ekki meira í bili, Guðjón
mánudagur, febrúar 02, 2004

Skyldur forseta

Eins og fram kemur í færslu Arnars Þórs Stefánssonar forseta Kaupmannadeildar Orator frá 18. desember sl. þá skipaði hann mig sem forseta Árósardeildar þess embættis. Í færslunni segir orðrétt:

"Vid embætti forseta Arosardeildar tekur hinn hressi Gudjon Armansson, eda Gaui glens, eins og eg kys ad kalla hann. Er hann skipadur forseti til 15. juni nk. Mun hann einnig sinna verkefnum fyrir hönd FKO [forseta Kaupmannadeildar Orator] eftir thvi sem timi gefst til, s.s. ad fara i opinberar heimsoknir, i mottökur i sendirad o.s.frv. Af nogu er ad taka a theim bænum."

En afhverju skyldi ég vera að minnast á þetta núna. Jú, á morgun mun ég sinna mínu fyrsta embættisverki. Væntanlegir eru fjórir íslenskir laganemar til að taka þátt í norrænni viku hér í Árósum og mun ég sjá um móttöku. Er þetta sérlega merkileg athöfn fyrir þær sakir að ekki finnast í gögnum embættisins nein dæmi um að svo margir íslenskir laganemar hafi komið til Árósa í einu. Reyndar finnast bara alls engin gögn í vörslum þessa embættis. Það sem gerir þessa heimsókn ekki hvað síst merkilega er að innanborðs er enginn annar en formaður Orator emiritus, Árni Hrafn Gunnarsson en eins og kunnugt er var það hans síðasta embættisverk að fastsetja í lög Orator þau embætti sem hér um ræðir.

(Hér hafði ég hugsað mér að koma með sérlega hnyttna umfjöllun um að ég gæti notað stærri orð en mógðandi um það að mér sem forseta hafi ekki verið tilkynnt um heimsóknina formlega og ég hefði verði á leið erlendis o.s.frv. Hefði orðið sorglegt. Eins gott ég áttaði mig)

Það er reyndar gaman að segja frá því að undir kvöld náði ég símasambandi við einn af ferðalöngunum sem staddur var í Kaupmannahöfn. Greindi ég varla orðaskil í því samtali. Spurning hvort síminn minn sé eitthvað bilaður?